föstudagur, maí 02, 2003

Ég gekk með bleika blöðru í göngunni í gær. Þetta var auðvitað flottasti parturinn. En mér fannst einsog ég hefði misst voða mikið úr þarna fyrst þegar ég mætti og gekk niður Njarðargötunna og þekkti eiginlega engan! Ekki fyrr en ég mætti Agli Helgasyni sem stóð krúttaralegur og miðaldra með barnavagninn og horfi á gönguna ganga fram hjá sér. Ég gekk sumsé ein með bleika blöðru og hitti enga gamla(!) vinkonu úr Kvennaframboðinu. Einu stelpurnar sem ég þekkti voru vinkonur Hildigunnar!
Svo fórum við Létturnar að syngja í Þjóðleikhúskjallaranum á eftir og það veit guð að ekki sungum við baráttulög því engin hefur verið að semja þau síðan þarna um árið. En við sungum ástarlög og er það ekki hin einu sönnu sígildu baráttulög kvenna..ha? En stemningin þarna minnti mig pínulítið á kvennaframboðið forðum svo maður fékk smá nostalgíukast. Vilborg Dagbjarts flutti sætt ávarp, en svo þurfti ég að rjúka, því ég var með litlu stelpurnar að syngja hjá Trésmiðafélaginu og þá var ég nú heldur betur á heimavelli. Þar var mitt fólk! Gamlir smiðir úr Trésmiðakórnum og svona. Og stúlkurnar sem að eru alls ekki alltaf í stuði að syngja á æfingum, sungu allt í einu einsog englar. Það var svo sætt.

Engin ummæli: