fimmtudagur, mars 16, 2006

Það var alltaf amk 4 rétta matseðill á hótel Savoy í Selva. Og guð minn góður hvað maturinn var góður. Ekkert hlaðborð, nema salatið og morgunmaturinn. Frábærar þjónustustúlkur klæddar í þjóðlega búninga sem þjónuðu okkur til borðs. Uppáhaldsforrétturinn minn var einhver smáfugl sem ég vissi reyndar aldrei hver var, kannski var þetta bara Lóa eða einhver frænka hennar, hvítvínssúpan með kanilbragðinu var ótrúlega góð líka, átti alls ekki von á því, svo voru alls kyns pastaréttir íka, ég elska fyllta torteliniið með spínatinu og ricotta ostinum. Alls kyns pylsur og speck líka. Saltimboccan var draumur og allir þessir fiskréttir sem ég lét ofan í mig. Etirréttir voru í creme brule stílnum. Verð að viðurkenna að ég er hálf andlaus í eldamennskunni eftir að ég kom heim. Keypti samt alls kyns pasta, bæði fyllt og alvöru kartöflugnocchi, sem ég var með í gær, og auðvitað osta og speck.Annars er Guðmundur er hættur í mat í skólanum. Ég nenni ekki að vera að borga 6000 kall á mánuði ef drengurinn kemur alltaf svangur heim. En ég var að hugsa um að hafa kjötbollur í kvöld þá get ég gefið honum einhvern afgang í skólann á morgun. En rosalega er það þægilegt að hafa mat í skólanum.Nú þarf ég að fara að hugsa um að hafa mat á kvöldin sem gæti hentað sem framhaldsmatur daginn eftir. En er strákurinn minn gikkur eða er maturinn vondur í skólanum. Á ég að fara að tékka á þessu eða bara að láta Jamie Oliver um þetta í Englandi. Ég verð að viðurkenna að ég nenni ekki að vera svona vesenistjedling í skólanum. En ég er orðin svona röflandi mamma. Var í morgun að röfla í drengnum um að við þyrftum að borða meiri fisk, og sagði að ég hefði borðað fisk 4 sinnum í viku. Gummi minnti mig þá á að hann væri nútímamaður en ekki fæddur á fornöld einsog ég og það væri hámark að hafa fisk 1 sinni í viku. Hvað er maður að röfla alltaf. Best að hætta því og bara að hafa pasta og pizzur. Halda svo fiskiveislur fyrir stóra fólkið.

A presto

Giovanna

miðvikudagur, mars 15, 2006

Ótrúlega gaman í þessu skíðaferðalagi sem ég fór í til Selva Valgardena. Í fyrsta lagi leið mér gjörsamlega einsog skíðadrottningu í bekknum mínum (framhaldsdeildinni) ekki síst þegar Adolf (Litli) skíðakennari sagði, Complimenti Giovanna, per il stilo. Mér fannst ég vera að skíða með stæl. Var þið vitið, farin að halla mér vel fram í skóna og horfa alltaf oní dalinn með rassinn í fjöllinn. Æðislegt. Algjörlega. Nema hvað, svo var ég eitthvað að flýta mér uppá hótel að hitta Signýju, við á leiðinni í Ortisei, ég er þarna búin að taka af mér skíðin og þegar ég dett á jafnsléttu, um leið beit ég í tunguna á mér og tók þessa líka rosa dýfu. Sjálf dívan. Mamma mía. Hélt ég hefði bitið af mér tunguna og væri brotin en slapp með skellinn í þetta sinn. Fór uppí Ortisei með Signýju. Rassinn fór ekkert að stækka að ráði fyrr en um kveldið. Jæja í Ortisei settumst við inná þennan líka ljúfa stað þegar við vorum búnar að koma af okkur hnífunum og pípunni og myndina af afa hans Demma. Veitingamaðurinn spyr okkur hvaðan við séum og við erum varla búnar að svara því þegar að heyrast hljómfagrir tónarnir hans Demma. Þetta var flottasta momentið í ferðinni. Við þarna í Ortisei hans Demma með hann á fóninum. Þarna sátum við lengi, grétum í klútana og borðuðum vel og veitingamaðurinn var sífellt að bjóða okkur uppá dísætan og dýrðlegan eplasnafs. Svo þegar loksins við komumst út af staðnum, stillir sér upp þessi krúttaralegi karlakór frá Ortisei og söng fyrir okkur fjallalög og sveitarómantík. Við ætluðum ekki að komast heim á hótel, fyrr en þrír Stuttgart gæjar buðu okkur far með leigubíl, og þar sem maður er löngu komin framyfir þann aldur að maður þurfi að óttast nauðgun og kynferðislega áreitni stukkum við án þess að hika uppí bílinn sem ók okkur beina leið heim. Já því miður kannski, en gæjarnir splæstu svo það var ákveðin huggun harmi gegn.

A presto

Giovanna

mánudagur, mars 13, 2006

Allora,

ég er mætt á svæðið enn á ný og tilbúin í tiltekt og læti. Endurnærð eftir skíði og jú, gul, blá og marin líka en óbrotin þökk sé guði. Var með ansi flottan kúlurass hægra megin en hann er að hjaðna. Var að huxa um að láta blása báðar kinnarnar, svona rassar koma vel út í salsa. Og talandi um salsa, náði ég ekki að dansa með léttum um helgina, var bisí í afmæli hjá mömmu í gær. Hitti næstum alla famelíuna og áttum feiki skemmtilegan dag. En nú er sumsé að finna aftur hinn eina sanna íslenska vinnugír. Og koma svo.


a presto

Giovanna