laugardagur, maí 10, 2003

Ég er búin að vera að skoða fjölskyldubloggið og er í hálfgerðu sjokki. Það er alls staðar linkað inná mig. Djísös. Nú er að halda sönsum. Kosningadagur upp runninn og nú er að sjá hvernig fer. Ég er búin að ákveða hvað ég ætla að kjósa. Það er nú spor í áttina. En þetta er einsog með átthugafjötrana. Alltaf erfitt að skipta um bókstaf. Meirað segja ég sem kalla ekki allt ömmu mína og er ekki einu sinni orðin amma sjálf á erfitt með að kjósa nýjan staf. Ég er byrjuð á fullu að ganga á morgnana.. Ekki alveg búin að ná að hlaupa allan hringinn en stefni í það fyrir lok sumars. Ég stekk út og labba út Fjölnisveginn, niður Barónsstíginn,inn Smáragötuna, niður í Hljómskálagarð. Þar skokka ég léttilega. Mætti halda að þar væri 50 kílóa unglingsstúlka á ferðinni. Fer svo upp á Ljósvallagötu inná Hólatorg, niður Garðastræti, að Ráðhúsinu og hinu megin við Tjörnina til baka og einhverja leið að Fjölnisveginum. Kannski bara 3 kílómetrar, en skárren ekkert. Og það sem er nú skemmtilegast er að maður er svo innilega hamingjusamur þegar maður er búin að fara út og fá sér íslenskt, ferskt loft. Ég segi íslenskt ferskt loft, því ég sakna milda sumarsins í fyrra, en þá hljóp ég alla daga í frönsku hæðunum í Brandon Les Cours. Og þótt maður mætti þar einstaka sinnum snákum á leiðinni, þá var svo dásamlegt að svitna í milda loftinu þar. Ég minnist ekki að hafa saknað íslenska ferska vindsins þar. En ég er sumsé að búa mig undir það að fara út að hlaupa. Síðan verður kosningamáltíðin undirbúin. Og hvað verður. Jú. Það eru jól framundan, ég verð með Kalla kúlu. Kalli minn, Kalli minn kúla,(Besame Mucho) sungum við og Gvendur Thor í gamla daga og vonandi syngjum við Gotta og Svanhildur og Rósa og Garðar og Gunnhildur, Sigrún Inga, Svandís og Guðmundur og Hildigunnur það í kvellan. Fyllingin verður með sveppum og eplum og alls kyns gúmmelaði sem ég á eftir að mixa. Þetta á eftir að vera mikill matar-og tiltektardagur.

fimmtudagur, maí 08, 2003

Æ þessir átthagafjötrar! Hvers á ég að gjalda. Mig langar í nýja íbúð. En helst ætti hún að vera á sama stað og þessi. Bara aðeins stærri. Með svölum. Og baðkeri. Og stóru herbergi fyrir Gumma. Og þvottahúsi á sömu hæð, helst.

miðvikudagur, maí 07, 2003

Það les náttúrlega engin síðu ef maður stendur sig ekki og skrifar reglulega. Málið er að ég fór til Vestmannaeyja um helgina með Léttsveitina og er hreinlega búin að vera með sjóriðu síðan. Enn einn fylgifiskur þess að vera komin á þennan aldur er að það tekur lengri tíma að jafna sig eftir góð gigg en áður. Og það er fyrst núna á miðvikudegi sem ég get sest og skrifað örlítið. Vestamannaeyjar voru dásamlegar og Eyjaskeggjar yndislegir. Léttsveitin tróð upp í fyrsta sinn á þessum stað og fyllti Höllina stóru.Og þegar svoleiðis gerist þá er hreinlega ekki hægt annað en skemmta sér vel. En núna fer maður að reyna að koma sér á jörðina aftur og taka upp hið venjubundna líf aftur. Ég stefni að því að hlaupa fyrir miðnætti. Sérstaklega ef haglélinu linnir.