föstudagur, maí 02, 2003

Ég gekk með bleika blöðru í göngunni í gær. Þetta var auðvitað flottasti parturinn. En mér fannst einsog ég hefði misst voða mikið úr þarna fyrst þegar ég mætti og gekk niður Njarðargötunna og þekkti eiginlega engan! Ekki fyrr en ég mætti Agli Helgasyni sem stóð krúttaralegur og miðaldra með barnavagninn og horfi á gönguna ganga fram hjá sér. Ég gekk sumsé ein með bleika blöðru og hitti enga gamla(!) vinkonu úr Kvennaframboðinu. Einu stelpurnar sem ég þekkti voru vinkonur Hildigunnar!
Svo fórum við Létturnar að syngja í Þjóðleikhúskjallaranum á eftir og það veit guð að ekki sungum við baráttulög því engin hefur verið að semja þau síðan þarna um árið. En við sungum ástarlög og er það ekki hin einu sönnu sígildu baráttulög kvenna..ha? En stemningin þarna minnti mig pínulítið á kvennaframboðið forðum svo maður fékk smá nostalgíukast. Vilborg Dagbjarts flutti sætt ávarp, en svo þurfti ég að rjúka, því ég var með litlu stelpurnar að syngja hjá Trésmiðafélaginu og þá var ég nú heldur betur á heimavelli. Þar var mitt fólk! Gamlir smiðir úr Trésmiðakórnum og svona. Og stúlkurnar sem að eru alls ekki alltaf í stuði að syngja á æfingum, sungu allt í einu einsog englar. Það var svo sætt.

fimmtudagur, maí 01, 2003

Ég er frjáls. Það er komið nýtt tímabil. Ég þarf ekki lengur að vekja dóttur mína áður en hún fer í skólann á morgnana. Síðasti menntaskóladagurinn rann upp í gær. Þvílíkur dýrðardagur. Við héldum uppá þetta mæðgurnar og fórum í verslunarleiðangur í Kringlunni. Gerðum okkur glaðan dag. Guðmundur var skilinn eftir í Japis við einhvern tölvuleik á meðan við æddum á milli búða og skoðuðum nýjustu tískuvörurnar. Og þvílíkir litir. Rauðir og bleikir og grænir og grænbláir og appelsínuguli uppáhaldsliturinn minn.
Endaði með að kaupa bleika skó á dóttur mína. Minnti mig á bleika tímabilið þegar hún var fimm ára. Svona endurtekur sagan sig.

Og svo er það gangan góða í dag. Ég verð femínisti í dag. Athuga hvernig það fer við mig.

miðvikudagur, apríl 30, 2003

Svo ég haldi nú áfram í miðaldrakrísunni, þá er enn einn fylgifiskurinn minnisleysi. Það munaði til dæmis alveg rosalega litlu að ég klúðraði deginum í dag. Ég var búin að vera í góðum fíling í morgun, gera mín morgunverk, hlaupa og ganga í góða veðrinu. Já þessu yndislega veðri líka og allt var svo dásamlegt. Endaði göngu-hlaupið með því að fara í Bernhöfts bakarí og kaupa speltibrauðið góða. Fór heim og átti gæðastund með kaffinu og blaðinu. Datt svo í hug að nú væri rétti tíminn að drífa sig í Hjólbarðahöllina en þar er ég fastagestur tvisvar á ári. Lét setja ný og naglalaus dekk. Sat í mestu makindum á biðstofunni og fylgdist með þessum sterklegu drengjum svona svolítið svartir allir og sveittir þegar Rúnar nokkur útfararstjóri gengur, nýþveginn og strokinn, inní salinn. Og ákkurat þessa sömu mínútu mundi ég að átti ég að vera mætt á æfingu fyrir jarðarför sem átti að byrja nákvæmlega hálftíma síðar. Og þetta hafði þá hreinlega hrunið úr heilanum. Svona einsog tölvuvírus. Nú voru góð ráð dýr. Ég í gallabuxum, átti að vera að mætt á æfingu og jarðarförin að bresta á.Og þið vitið maður fer ekki að syngja í gallabuxum við jarðarfarir.. Ég stökk í bílinn sem einn hjólbarðatöffarinn var að enda við að festa síðasta dekkið á, brunaði til mömmu sem er vel að merkja einn og hálfur á hæð og amk 10 kílóum þyngri en ég og býr þarna á næstu grösum og fékk lánaðar buxur sem voru eiginlega nærri því að vera pils á mér en buxur. Næstum því búin að fá heilablóðfall í stressinu. .. Mamma mia che strano! Altsaa..þetta fór algjörlega með daginn...

mánudagur, apríl 28, 2003

Má ég benda á síðu Hildigunnar verðandi frönskunemenda og tjillara í París; uppáhaldsdóttur minnar.
Vandræði mín hafa heldur aukist eftir að ég byrjaði að blogga. Beibí beibí. Nú verð ég líka að láta líta út einsog ég eitthvað spennandi gerist hjá mér á hverjum degi. En afþví ég er bara búin að segja Hildigunni, Helgu og Kiddu fræ og Elísabetu frá þessu þá er nú enginn að lesa það sem maður skrifar. Elísabet spurði fyrir hvern ertu að þessu. Og ég varð svolítið hvumsa...fyrir hvern. Nú mig auðvitað. Ég er bara að æfa mig að hugsa upphátt. Og guð veit að ég ætla nú ekki að fara að segja frá einhverju alvörumáli. Eða einsog það sé ekki alvöru mál að vera í miðaldra krísunni... Einn fylgifiskur þess er t.d að ég er algjörlega að vera blind. Ég skrifa núna t.d. blindandi á þessa síðu. Svo sé ekki rykið heima hjá mér (guðisélof). En að fá mér tvískipt gleraugu kemur ekki til greina. Frekar ætla ég ekki að sjá nóturnar, bara að impróvisera, hætta að þurrka af, missa af öllum sætu gæunum. En ekki tvískipt gleraugu. Reyndar lærði ég trikk hjá Elsu vinkonu minni um daginn. Ein linsa -2.25 önnur 0.75. Maður verður að vísu svolítið ringlaður fyrstu dagana á eftir en maður les með hægra auganu og horfir á strákana með því vinstra. Einfalt og gott ráð hjá Elsu. Ég kíli á þetta á morgun... og by the way. Ég náði bara hálfu hlaupi í morgun því ég hitti Möggu Palma og hún bauð mér far heim og hver neitar því þótt hann sé í átaki dauðans...Enda náðum við bæði kaffi og amk fimm splunkunýjum kjaftasögum á eftir...

sunnudagur, apríl 27, 2003

Ástæðan fyrir þessari löngu pásu(!) er sú að ég er svo tölvuvitlaus að ég komst ekki inní bloggið. En. Versti dagur lífs míns var í gær. Vaknaði kl. 6.30 um morguninn með blóðnasir. Gat ekki sofnað aftur svo ég fékk mér 6 rótsterka kaffibolla og las helgarDV-ið (ég fór í fýlu útí moggann og sagði honum upp og dauðsé eftir því!). Alltíeinu fattaði ég að kaffi væri sennilega ekki sniðugt við þessar kringumstæður og blóðnasir kæmu útaf of háum blóðþrýsting.! Þvílík skömm. Er ég þá orðin miðaldra beibí? Ég sem á svo margt eftir og er ekki einu sinni ennþá búin að sýna og sanna hver ég er í raun og veru! Ég, þessi síunga og glaða kona hafði allt á hornum mér það sem eftir var dagsins. Breyttist í þreytta einstæða móður með tvö, sem á ekki neitt, kann ekki neitt og er þar að auki komin með of háan blóðþrýsting. Til að fullkomna miðaldra ímyndina keypti ég mér útsölubók eftir súperstjörnuna Oprah Winfrey um lífið í jafnvægi. Nú skal búa sig undir árin sem eru að nálgast.....ó vei....Og þegar kvöldið var komið og ég var bæði búin að horfa á Mortens bræðurna, sem ég var í hljómsveit með fyrir milljón árum og hét Gúanóbandið og Möggu Pálma sem ég söng með um áraraðir, þá fannst mér einhvern veginn allir hefðu meikað það nema ég......þvílíkur gærdagur og þvílík krísa.

En dagurinn í dag.. byrjaði amk. betur. Engar blóðnasir og klukkan orðin átta og ég fékk mér bara einn bolla af kaffi (temmilega sterku). Og viti menn. Ég fór í hlaupaskóna mína sem ég keypti í Frakklandi í fyrrasumar. Og fyrir kl. níu sveif ég út til hægri snú og gekk og hljóp til skiptis..í Hljómskálagarðinum í kringum Tjörnina og svona, leið ógeðslega vel eftir hlaupin og sturtuna og beint í barnamessuna með litlu sætustu kórana mína.