miðvikudagur, apríl 30, 2003

Svo ég haldi nú áfram í miðaldrakrísunni, þá er enn einn fylgifiskurinn minnisleysi. Það munaði til dæmis alveg rosalega litlu að ég klúðraði deginum í dag. Ég var búin að vera í góðum fíling í morgun, gera mín morgunverk, hlaupa og ganga í góða veðrinu. Já þessu yndislega veðri líka og allt var svo dásamlegt. Endaði göngu-hlaupið með því að fara í Bernhöfts bakarí og kaupa speltibrauðið góða. Fór heim og átti gæðastund með kaffinu og blaðinu. Datt svo í hug að nú væri rétti tíminn að drífa sig í Hjólbarðahöllina en þar er ég fastagestur tvisvar á ári. Lét setja ný og naglalaus dekk. Sat í mestu makindum á biðstofunni og fylgdist með þessum sterklegu drengjum svona svolítið svartir allir og sveittir þegar Rúnar nokkur útfararstjóri gengur, nýþveginn og strokinn, inní salinn. Og ákkurat þessa sömu mínútu mundi ég að átti ég að vera mætt á æfingu fyrir jarðarför sem átti að byrja nákvæmlega hálftíma síðar. Og þetta hafði þá hreinlega hrunið úr heilanum. Svona einsog tölvuvírus. Nú voru góð ráð dýr. Ég í gallabuxum, átti að vera að mætt á æfingu og jarðarförin að bresta á.Og þið vitið maður fer ekki að syngja í gallabuxum við jarðarfarir.. Ég stökk í bílinn sem einn hjólbarðatöffarinn var að enda við að festa síðasta dekkið á, brunaði til mömmu sem er vel að merkja einn og hálfur á hæð og amk 10 kílóum þyngri en ég og býr þarna á næstu grösum og fékk lánaðar buxur sem voru eiginlega nærri því að vera pils á mér en buxur. Næstum því búin að fá heilablóðfall í stressinu. .. Mamma mia che strano! Altsaa..þetta fór algjörlega með daginn...

Engin ummæli: