föstudagur, desember 12, 2003

Jæja hálsar og hálsakotin góðu! og jólasveinninn kom bara í nótt. Við vorum ekkert endilega að búast við honum en hann mætti með vasaljós handa Gumma. Hann hefði nú mátt vera búinn að setja batterí í ljósið en auðvitað mikið að gera hjá honum einsog öðrum. Ég fékk nokkrar Kammerkórsdömur til að baka með mér í gær og það gekk glimrandi. Þær eru svo skemmtilegar þessar stelpur. Annars lítið að frétta þannig helst það að ég er í verslunarmínus núna. Nenni ekki í búðir, finnst ég ekki þurfa neitt og allir eiga allt. Og ég stræka algjörlega á Ikea. Þetta er sennilega vægt jólaþunglyndi. Má ég heldur biðja um bakstur í eldhúsinu. Ætli maður baki ekki bara jólabrauð handa liðinu. Svo get ég þá reddað svuntum á restina.

bless í bili

a presto

Giovanna

miðvikudagur, desember 10, 2003

Halló allir góðir hálsar, ótrúlegt að það skuli vera kominn 10. des. Mamma mia. Og aðventutónleikum Léttsveitarinnar lokið með troðfullu húsi. Jezz. Við komumst að lokum á vængjum söngsins til Ítalíu. Gaman gaman. Nú verður maður að fara að baka held ég. Beta bað mig um uppskrift af franskri sveitakæfu. Og hér kemur hún eftir minni. Ég get aldrei alveg farið eftir uppskrift. Þannig held ég að maður finni nefnilega sitt eigin skrýtna bragð. Þvílík della en svona er ég samt. Kæfan er hér.

Kæfa ættuð frá Frans,

Lifur. Þetta var dilkalifur sem ég átti í frysti örugglega ein 800 gr.
Þá var ég með beikon bréf. og ca 400 gr af nautahakki.
tveir laukar og 3 hvítlauksrif
svo setti ég villijurtir einhverjar svona matskeið örugglega og missti konjak oní, sennilega dl.
2 egg og dl af hveiti
og salt

Ég hakkaði helminginn af lifrini og skar restina í smáa bita. Hrærði saman í skál svo þetta blandaðist vel. Hugsaði fallega til þeirra sem myndu borða þetta. Lét þetta liggja í ísskáp í klst. Þá bætti ég hveiti og eggjum samanvið og bakaði í klukkutíma. Hefð kannski mátt taka hana aðeins fyrr út. En svona var hún. Bar fram með brauði og salati og það var gaman að borða þetta ekki sakaði rauðvínið með.

Nammi namm. Svo er líka heimilisleg kæfulykt hjá manni á meðan.

a presto

Giovanna

mánudagur, desember 08, 2003

Góðir hálsar og hálsakot og hann rignir bara í dag. Sissi siss. Ég skil ekki hvað tíminn flýgur . Léttsveitin búin að selja alla miðana sína á morgun. Gaman gaman, gargandi snilld. Sennilega engin tími samt fyrir aukatónleika. Bara að vona að við fyllum á vortónleikana í staðinn. Svona á þetta að vera. Guðmundur spilaði á sínum fyrstu píanótónleikum í gær. Hann var sallarólegur og einbeittur á að líta. Og spilaði voða vel. Svo var líka viðtal við hann í Mogganum í Atvinnublaðinu. Hann trúði mér fyrir því að þetta hefði verið einn merkilegasti dagur lífs síns. Ég get ekki annað en verið sammála drengnum.

Og svo eru það blessaðir englarnir og börnin sem bíða í dag. Og ekki má gleyma Breiðabliksdömunum. Gaman gaman.

A presto
Giovanna Rossa