fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Ég er smám saman að komast í einhverja rosalega Kúbumaníu og mikið rosalega er það gaman. Það hreinlega heldur manni gangandi og gerir þessa hversdagslegu hluti svo miklu skemmtilegri. Ég ætla að hlusta á Omöru gömlu sætu krúttsöngkonu Portuendo núna. Hún minnir mann á það að maður getur sungið fram í rauðan dauðan. Og hver vill það ekki?


A presto

Giovanna

þriðjudagur, janúar 31, 2006

afrekaði í dag að koma drengnum í skólann

fara í sund og synda 400 metra

í tíma til Tuma og stúdera taktskipti og styrkja handahreyfingar

heimsækja mö og pa uppá Háó

undirbúa þrjár kóræfingar

sækja Gumma í skólann og keyra hann í saxófóntíma og síðan í píanótíma

fara á kóræfingu hjá Stúlknakórnum

missa stjórn á mér á Kammerkórsæfingu... þær mættu korter of seint..

elda þorsk á kínverskan máta... namm

fara á léttsveitaræfingu og kenna þeim hið kúbanska Juramento og hjakka í barnagælunni hans Hróðmars, sem var reyndar mjög gaman....

er algjörlega glaðvakandi og þarf að fara að lesa svo ég nái mér niður. Er loksins byrjuð á hinni æsispennandi bók, Skuggi vindsins sem er eftir Barcelóna gæjann Charlos Ruiz Zafon og satt best að segja heldur byrjunin manni alveg svo ég hlakka til að demba mér í hana, þótt ég þekki ekki göturnar og staðina þarna ... bara einu sinni verið þarna í Barcelóna 1986 minnir mig og heimsótti þá Arnald Arnarson gítarista og bjó hjá þeim hjónum. Hildigunnur var í kerru og man ekkert eftir þessu. Einar pabbi hennar var með tónleika ásamt Paul Galbraith gítarleikara. Þetta var á þeim árum sem ég borðaði ekki kjet né fisk, né bragaði áfengi. Gleymi því aldrei hversu maturinn var góður. Ólívuolían og eggaldin og já allt grænmetið og hvítlaukurinn. Ulla madonna og eftirréttirnir. Svo náttúrlega Gaudi og gítarleikurinn alls staðar.

Kannski kominn tími á aðra ferð þangað.

En fyrst eru það skíðin á Ítalíu og mjaðmahnykkir og söngur á Kúbu.


Viva la Kuba, Viva Castro

mánudagur, janúar 30, 2006

Ég komst að því seint í gærkveldi hvernig dularfulla Kastróbandið hafði komist í gegnum bréfalúguna, og til að gera langa sögu stutta var það sá gamli danski, sem hafði sent það til mín í gegnum ótal krókaleiðir. Tryggvi nokkur Ólafs er góður vinur Kastrós og líka minn og vill að við Kastró náum tæt sammen fyrir ferðina. Ég gat ekki annað en brosað, gat varla útskýrt fyrir honum að ég gæti ekki séð hann í vídeóinu mínu þannig að nú verð ég að redda vídeói sem hefur réttan hraða. Það er búið að hafa svo mikið fyrir því að koma þessu til mín að ég er auli ef ég horfi ekki á það... Ætli maður hafi bara ekki Kastrókvöld fljótlega með saltfiski og rommi. Það væri náttúrlega brilliant lending.
Ingibjörg Har er væntanleg á kóræfingu eftir góða viku til að segja okkur svolítið frá textunum sínum. Sennilega getur hún ekki verið með okkur á Kúbu hún fer í mars þannig að það er náttúrlega spæling. Hefði verið gaman ef hún hefði lesið ljóðin sín á spænsku. Það er ekki alltaf á allt kosið.
Annars orðið svo vorlegt að ég dreif mig út til að taka niður síðustu jólaskreytingarnar í Rauðagerðinu. Jólin eru búin. Anna Kristins nágrannakona mín flúin af landi brott, eftir að hafa tapað kosningum fyrir ungum og efnilegum dreng á uppleið. Mér sýnist að prófkjörin endi þannig að allar konur í framboði tapi fyrir strákunum ungum og gömlum en öllum á uppleið og ég velti því fyrir mér hvenær Léttsveitin breytist í pólitískan flokk með víddir og breyddir og við mölum strákana í prófkjörum og hreinsum til í borgarstjórn.. Ha ha

a presto

Giovanna

sunnudagur, janúar 29, 2006


Þetta er nú meiri rigningin.

Alltaf er hún söm við sig
sérstaklega í vætutíð
Gamla raka rigningin
ranghvolfir í sér augunum.

Langar mest að vera undir sæng í dag. En maður á nú eftir að fara í messuna og svona. Hver veit nema Eyjólfur hressist.
Ég ætla að prófa að setja inn mynd á bloggið. Skyldi maður ná því?

a presto
Giovanna