föstudagur, febrúar 17, 2006

Skellti mér í fimm hundruð metrana í morgun í sundinu. Skil ekki af hverju ég fer ekki á hverjum morgni. Það er hreint og beint dásamlegt að henda sér í laugina. Svo lenti ég í söngstund í gufunni; ég er farin að ryðga illa í Nú er frost á Fróni. Annars bara vinnudagur framundan, kennsla, ein för og Ásta kemur svo til ömmu sinnar. Hvað er hægt að biðja um meira?

a presto

Giovanna

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Jamm og jæja, það er ömmufílingurinn sem bíður mín núna.

Ásta á leiðinni og ég reddí með prjónana og kaffið.


Amma gamla er syfjuð og amma gamla er þreytt
ramba ramba þamba þamba og ró ró ró

Hún er orðin aumingi sem ekki þolir neitt.
Bíum bíum bamba og ró ró ró




a presto

Giovanna

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Það var löng og ströng kennslustund með stjórnendunum í morgun. Þegar maður er allt í einu farin að læra að stjórna eftir öll þessi ár í faginu, þá veltir maður fyrir sér hvernig maður náði þó því útúr kórunum sem maður náði án þess að vita hvað maður var að gera fyrir framan fólkið. Maður setti maskínuna einhvern veginn í gang, gaf inn og gaf tóninn og svona en hvað svo? Dinglaði höndum bara og sagði sjaka sjaka öðru hvoru. Tók kannski tvo þrjá mjaðmahnykki. Dio mio. En liðið er liðið. Nýr innblástur, nýtt líf. Maður nálgast hlutina með gjörsamlega nýjum hætti. ... Í hádeginum var ég á örfundi með stjórn Stúlkna-og Kammerkórsins. Við ætlum að fara norður á Akureyri og syngja í messu í Glerárkirkju í vor. Maður er alltaf að koma sér í vandræði. Ekki nóg með það heldur eru the Odd fellows á leiðinni á Önundarfjörð í vor líka, búnir að leigja hús á Sólbakka, þannig að nú þarf ég að setjast niður og skipuleggja aðeins bara...

je je

A presto

Giovanna

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Ó mæ god, hvað það er erfitt að setjast á skólabekk og þurfa að láta kenna sér að slá 4/4 þegar maður er búin að standa á stjórnendapallinum í 10 ár. En þetta gerði ég nú í morgun hjá G.Óla sem var að tékka á stöðunni svona áður en prófin bresta á. Sem mér fannst nú ósköp fallega gert. En slagið mitt var étið oní sig í hádeginu. Þar fór það og nýtt á leiðinni.

A presto

Giovanna

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Jæja hvað skal segja.

Helgin að kveldi komin. Gummi fór í æfingarbúðir með Lúðrasveitinni á laugardaginn, í fyrsta sinn að heiman heila nótt. Auðvitað hefur hann áður gist hjá ömmu og afa og Hilmari vini sínum, en að fara í rútuferð með tuttugu krökkum að Úlfljótsvatni er náttúrlega allt annað dæmi. Og mér leið einsog frjásum unglingi, fór bara í partí hjá bekknum mínum. Matur og alles hjá Bjarneyju Ingibjörgu á Nesveginum. Framandi réttir frá Indlandi og Afríku. Salöt og ostar og hrikalega magnaðir eftirréttir. Ég kom með minn kúbanska saltfisk og fannst eiginlega svo gaman að búa hann til að ég var komin með þá hugmynd að stofna saltfiskmatsölustað. Sá fyrir mér hvað þetta væri dásamlegt líf. Alltaf að elda saltfisk á hverjum degi. Þangað til ég rankaði við mér, auðvitað gæti verið grautfúlt að vera alla daga bundin yfir pottunum. Nema að hafa hann opinn bara þrisvar í viku. Þessi gamli draumur kemur og fer. En ég er búin að finna nafnið á hann og inrétta hann í huganum, þannig að kannski geri ég þetta eftir 10-15 ár. Þegar ég sel húsið og flyt til Ítalíu. Jæja nema hvað. Fór í morgunkaffi til vinkonu minnar Helgu sem entist alveg þangað til að Guðmundur kom heim klukkan fimm. Við Helga fórum útum allan bæ, ma. í Eymundson þar sem við keyptum okkur Kúbubækur og ég náði loksins í bókina um John Thaw sem lék hann inspector Morse. Og nú ætla ég klárlega að einhenda mér í lesturinn. Svo ég tali nú einsog íþróttagæi.

A presto

Giovanna