fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Elska svona letidaga einsog í gær. Þurfti ekkert að fara neitt. Sleppti sundi. Það var hvorteðer skítkalt. Gerði eiginlega ekkert þannig séð. Drakk kaffi svolítið og velti því fyrir mér hvað Inigbjörg Haralds er mikil gæðakona. Hún kom í heimsókn á Léttsveitaræfingu á þriðjudagskvöldið og sagði okkur frá ljóðunum sem hann Hróðmar samdi lögin sín við. Og kemur þá í ljós að öll þessi ljóð eru samin á Kúbu. Þetta er ævintýralega ótrúlegt. Og við að fara að syngja ljóðin hennar þar. Hún sagði okkur skemmtilega frá bakgrunninum. Ljóðin eru úr fyrstu ljóðabókinni hennar og heita Upphaf, Barnagæla, Minning og Myrkrið í kringum mig. Fékk inspirasjón um að fá hana Ingibjörgu til okkar þegar ég talaði við Rut L. um daginn og hún fór að tala um textana og hvað væri oft mikið á bak við textana. Hlutur sem maður veit svosem en vill gleyma í hita kennslunnar og hvað á é gað segja; hita hjakksins.Rut var t.d. að tala um hörpulaufið gráa, í vögguljóð á hörpu. Hvað það væri. Hún sagði að sér fyndist það vera grávíðir. Það hafði aldrei hvarflað að mér. Auðvitað þegar einhver bendir manni á það. Eitthvað svo íslenskt líka. Kláraði loksins viðtalið við Rut. Nú er að senda henni eintak og vona að þetta fari að koma á síðuna okkar söngkennara, fisis.is.

A presto

Giovanna

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Je minn ég var klukkuð í klukkuleik

4 vinnur sem ég hef unnið um ævina:

í frystihúsinu á Raufarhöfn,
á Kjarvalsstöðum
blaðamaður á Helgarpóstinum
lummugerðarmeistari í Tjöruhúsinu á Ísafirði

4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur:

Kórinn
Carmen Saura
Dauðinn í Feneyjum
Babettes Gæstebud

4 staðir sem ég hef búið á:

Beechwood Avenue, Manchester
Sherwood Avenue, London
Via Gaspare Landi, Piacenza
Brandon Le Cour, Búrgúndarhéraði

4 sjónvarpsþættir sem ég fíla:

endalaust enska sakamálaþætti
Derrick
Pepe, sale e po? di fantasia
Sopranos

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Ísafjörður, alltaf þangað
Hólmavík
Drangar
Ítalía

4 síður sem ég skoða daglega:

Arnlaugsson.com
Folk.is/gumsilius
Melo15.blogspot.com
Akrar.blogspot.com

Fernt matarkyns sem ég held upp á:

Límóna
Engifer
Rucola
timian

4 staðir sem ég vildi hlest vera á núna:

Á Gato Tuerto í Havana,
Í óperunni í Róm
Æi þarna gamla Mozartkaffihúsinu í Vínarborg. Eru þau kannski mörg?
Latínuhverfinu í París á kaupa mér crepe með góðu líkjöri

4 bloggarar sem ég klukka

Iddí
Gummi
Skúli
Brusselgengið

a prestissimo

Giovanna
Langi dagurinn í dag og mér er skítkalt. Var í tíma í morgun. Núna ætla ég að hita mér gott kaffi og svo aðeins að leggja mig (já í þessari röÐ) og svo byrjar geðveikin.

A presto

Giovanna

mánudagur, febrúar 06, 2006

Gærdagurinn leit út fyrir að ætla að verða svona ósköp venjulegur sunnudagur, þangað til að dívan hún Signý sem er einmitt afmælisbarn dagsins hringdi í mig og hvatti mig eindregið til að koma á frumsýningu kvöldsins, hana Cenerentolu hans Rossinis og ég meina sem gömul Öskubuska þá að sjálfsögðu þurfti ekki að biðja mig lengi, því hver vill missa af frumsýningu í litla krúttara dúkkuóperuhúsinu okkar. Og loksins frumsýning á Öskubusku. Kominn tími til. Una volta cera un re. Sætar melódíur. Við Júlís Vífill hefðum alveg vilja vera að syngja aðalhlutverkin en ég hugsa að við setjum þetta aftur upp á elliheimilinu. Þá náttúrlega endurreisum við Óperusmiðjuna..En það sem þetta er skemmtileg sýning. Frábær leikstjórn náttúrlega svo fyndin og skemmtileg ópera, ekki síst þegar að allir okkar söngvarar komust bara þokkalega vel frá sínu. Sesselja var æði. Mjúk og hlý röddin alveg að gera sig í þessu hlutverki. Og þokkalega góð í kóleratúrflúrinu öllu saman. Garðar söng sig upp í sýningunni og var bestur eftir hlé. Þokkalega latin-legur drengur. Enda náttúrlega kosinn sá kynþokkafyllsti. Ég hafði ákveðnar efasemdir með Davíð áður en ég fór á sýninguna en það var algjör óþarfi. Hann fór hreinlega á kostum drengurinn sá. Og þarf ég að lýsa Begga? Hann átti senuna voða mikið þegar hann var inni, alveg drepfyndin.Hlín var í kostulegum búning og ofsalega fyndin og söng vel. Guð ég man ekki hvað þessi nýja heitir en hún komst vel frá sínu. Karlakórinn skemmtilegur og gaman að sjá hvað þeir elskuðu að vera á sviðinu drengirnir. Rússínan í pylsuendanum er náttúrlega Einar Guðmundsson baritón. Það var mikill þokki yfir röddinni hans og gífurlegur sjarmör. Og hvað vill maður meira.

sumsé drífið ykkur á sýninguna það eru bara níu sýningar eftir.

a presto

Giovanna