föstudagur, desember 03, 2004

Góðan daginn góðir hálsar!

Ég vaknaði snemma í morgun og í fyrsta sinn í langan tíma útsofin. Dásamleg tilfinning!Fékk mér rótsterkt kaffi og kveikti á kertinu og rás eitt. Það er nefnilega rásin mín. Vakti Guðmund sem svaf í gestaherberginu. Hann ætlar að halda herberginu sínu hreinu fram að jólum og græða 1000 kall, en sefur í gestaherberginu á meðan svo hann drusli þá ekki til í sínu. Hildigunnur söng með Hamrahlíðakórunum í gær með Sinfó og ég fékk ekki miða.Uppselt. Hlustaði grannt á í útvarpinu og var grútspæld að vera ekki á staðnum. Hildigunnur hringdi í hléinu og sagði mér að það væru laus sæti. Gummi var þá kominn á handboltaleik í Víkingsheimilinu, ég þangað og fékk hann út með mér í miðjum leik en það var ekki nokkur leið að koma honum á tónleikana, þannig að ég gafst upp á því og mátti hlusta áfram í útvarpinu. Dásamleg tónlist. Gæsahúð og vellíðan. Ég bakaði lakkrístoppa á meðan ég hlustaði og svona. Var annars á kóræfingum í gær og loksins tókst mér að komast í gegn um þetta Dívu-verkefni sem framundan er. Mikill nótnapappír og vinna við að komast í gegnum síðurnar en músikin er alls ekki svo flókin þegar maður hefur komist í gegnum það. Lágnættið líður áfram svona einsog lífið. Mér hefur tekist að koma út fyrstu 500 eintökunum en betur má ef duga skal. Ég kynni geisladiskinn á laugardag hjá Menningar- og friðarsamtökum kvenna í MÍR salnum og einnig hjá SÖLKU í Iðu á laugardag og hjá Alberti í Jólaþorpinu á sunnudaginn. Margar upphringingar og tölvupóstar hafa glatt mig síðustu daga. Liggur við að mér sé um og ó við hrós og skjall. Þá eru margir sem hafa séð myndbandið á Skjá einum við Dóma heimsins, en vinkona mín hún Garún, Guðrún Daníelsdóttir á heiðurinn af því verki öllu saman. Hún er algjört yndi, stelpan sú. Ekki meira að sinni!

a presto

Giovanna


mánudagur, nóvember 29, 2004

Halló góðu hálsar og hálsakot!

Það var mikið um dýrðir á aðventukvöldinu í Bústaðakirkju í gærkvöldi. Öllum kórum kirkjunnar tjaldað og ég átti (segi og skrifa átti) rúmlega 80 börn þarna í hópnum. Þetta er alltaf æsispennandi kvöld hjá mér og aðalhátíð kirkjunnar. Krakkarnir voru mætt uppúr sex og hituð kl. hálfsjö og þá var þegar farið að fyllast allt af fólki í kirkjunni þótt að tónleikarnir sjálfir byrjuðu ekki fyrr en átta. Stóru börnin þurftu svo að bíða til hálfníu eða eftir að stormandi stólræðu forsætisráðherrans var lokið, til að koma fram. Öll strollan stillti sér upp, Englakór og Barnakór, Bjöllu-og bongósveitin, Stúlkna-og Kammerkórinn. Og til að krydda tilveruna söng svo Kirkjukórinn með þeim lokasöngvana. Leið yfir eina, önnur fékk magakveisu og sú þriðja sjokk af veseninu í hinum. En allir sungu vel og lifðu 1.kvöld aðventunnar af. Eftir að allir voru farnir og búið var að ganga frá í kirkjunni vorum við Gummi ( sem spilaði í bjöllusveitinni) gjörsamlega aðframkomin af hungri, skelltum okkur á Dóminós og fengum okkur tvennutilboð. Algjör antiklímax. Ég meina, að kveikja á aðventukransinum með pizzusneið og kókglas.

Má ég nú ekki frekar biðja um kakó og kanelvöfflu!



a presto

Giovanna