mánudagur, nóvember 29, 2004

Halló góðu hálsar og hálsakot!

Það var mikið um dýrðir á aðventukvöldinu í Bústaðakirkju í gærkvöldi. Öllum kórum kirkjunnar tjaldað og ég átti (segi og skrifa átti) rúmlega 80 börn þarna í hópnum. Þetta er alltaf æsispennandi kvöld hjá mér og aðalhátíð kirkjunnar. Krakkarnir voru mætt uppúr sex og hituð kl. hálfsjö og þá var þegar farið að fyllast allt af fólki í kirkjunni þótt að tónleikarnir sjálfir byrjuðu ekki fyrr en átta. Stóru börnin þurftu svo að bíða til hálfníu eða eftir að stormandi stólræðu forsætisráðherrans var lokið, til að koma fram. Öll strollan stillti sér upp, Englakór og Barnakór, Bjöllu-og bongósveitin, Stúlkna-og Kammerkórinn. Og til að krydda tilveruna söng svo Kirkjukórinn með þeim lokasöngvana. Leið yfir eina, önnur fékk magakveisu og sú þriðja sjokk af veseninu í hinum. En allir sungu vel og lifðu 1.kvöld aðventunnar af. Eftir að allir voru farnir og búið var að ganga frá í kirkjunni vorum við Gummi ( sem spilaði í bjöllusveitinni) gjörsamlega aðframkomin af hungri, skelltum okkur á Dóminós og fengum okkur tvennutilboð. Algjör antiklímax. Ég meina, að kveikja á aðventukransinum með pizzusneið og kókglas.

Má ég nú ekki frekar biðja um kakó og kanelvöfflu!



a presto

Giovanna

Engin ummæli: