föstudagur, desember 03, 2004

Góðan daginn góðir hálsar!

Ég vaknaði snemma í morgun og í fyrsta sinn í langan tíma útsofin. Dásamleg tilfinning!Fékk mér rótsterkt kaffi og kveikti á kertinu og rás eitt. Það er nefnilega rásin mín. Vakti Guðmund sem svaf í gestaherberginu. Hann ætlar að halda herberginu sínu hreinu fram að jólum og græða 1000 kall, en sefur í gestaherberginu á meðan svo hann drusli þá ekki til í sínu. Hildigunnur söng með Hamrahlíðakórunum í gær með Sinfó og ég fékk ekki miða.Uppselt. Hlustaði grannt á í útvarpinu og var grútspæld að vera ekki á staðnum. Hildigunnur hringdi í hléinu og sagði mér að það væru laus sæti. Gummi var þá kominn á handboltaleik í Víkingsheimilinu, ég þangað og fékk hann út með mér í miðjum leik en það var ekki nokkur leið að koma honum á tónleikana, þannig að ég gafst upp á því og mátti hlusta áfram í útvarpinu. Dásamleg tónlist. Gæsahúð og vellíðan. Ég bakaði lakkrístoppa á meðan ég hlustaði og svona. Var annars á kóræfingum í gær og loksins tókst mér að komast í gegn um þetta Dívu-verkefni sem framundan er. Mikill nótnapappír og vinna við að komast í gegnum síðurnar en músikin er alls ekki svo flókin þegar maður hefur komist í gegnum það. Lágnættið líður áfram svona einsog lífið. Mér hefur tekist að koma út fyrstu 500 eintökunum en betur má ef duga skal. Ég kynni geisladiskinn á laugardag hjá Menningar- og friðarsamtökum kvenna í MÍR salnum og einnig hjá SÖLKU í Iðu á laugardag og hjá Alberti í Jólaþorpinu á sunnudaginn. Margar upphringingar og tölvupóstar hafa glatt mig síðustu daga. Liggur við að mér sé um og ó við hrós og skjall. Þá eru margir sem hafa séð myndbandið á Skjá einum við Dóma heimsins, en vinkona mín hún Garún, Guðrún Daníelsdóttir á heiðurinn af því verki öllu saman. Hún er algjört yndi, stelpan sú. Ekki meira að sinni!

a presto

Giovanna


Engin ummæli: