föstudagur, nóvember 21, 2003

Hildigunnur
Halló halló góðu hálsar og hálsakot ég er eitthvað svo óskaplega syfjuð í dag. Kannski af því ég vaknaði snemma í morgun og fór seint að sofa í gær.. Ha ha... Gaman að lifa og föstudagur og fasteignasalinn hringdi og kallaði mig elskuna sína hvað eftir annað og sagðist ætla að koma með áhugasaman skoðandi í dag. Já. Svo er nú það. En hvað það verður veit nú engin. En annars er það dálítið sem ég verð að játa. Ég er búin að trassa alveg óskaplega leikfimina í vetur. Ég byrjaði samt ágætlega. Amk. byrjaði ég. En svo fór ég að leita að húsi og kaupa og standi í alls kyns veseni. Redda láni og tala við einhverja matsmenn sem þurftu að endurmeta íbúðina og einhvern veginn lenti þetta allt á leikfimi tímanum og ég hætti smám saman og Lella var á Ítalíu svo það var einhver ótrúlega öðruvísi kennari og ég einhvern veginn datt út úr rútínunni og hvað gerist þá? Bakið verður ómögulegt og maður þyngist andlega og missir stjórn á matarlystinni og einhvern veginn allt úr skorðum. Er þetta ekki ótrúlegt. Ótrúlegt hvað maður þarf að hafa fyrir svona skemmtilegum hlut einsog að hreyfa sig. Sisisisi... en ég er að skrifa þessar játningar í von um að ég breyti nú um lífstíl. Það er voða vinsælt á Íslandi. Gera átak, breyta um lífstíl. Jezzzz. Nú verð ég að fara amk. 3 hringi í kringum Tjörnina á viku. Er það ekki það minnsta sem hægt er að gera. Taka sig á. Láta sig hafa það. Og það skrýtna er að manni líður betur eftir á. Einmitt þess vegna ætti þetta að vera auðvelt. Ókei ókei ókei. Ég skal hætta að skrifa. Nú dríf ég mig í gönguskóna út að ganga.

A presto

Giovanna Rossa

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Jæja góðu hálsar í dag er mér ekki til setunnar boðið. Allt á milljón. Jólin jólin jólin koma brátt. Það eru jólalögin sem boða frið á jörðu sem eru á fullu núna hjá okkur léttsveitardömum og breiðabliksdömum og bústaðadömum og herrunum í drengjakórnum. Jólin alls staðar. Beibe beibe. Anda djúpt og rólega. Hlutirnir hafa tendens til að bjargast. Hvað segiði? Er ég komin í jólastress? Ekki langt í það. Það er þessi tími núna. Ég fór guði sé lof í góðan göngutúr í morgun bara svona til að hugleiða. Eða eiginlega ekki hugleiða. Hugsa um ekkert. Samt hugsar maður alltaf um eitthvað. Til dæmis hvað það er gaman að búa í hjarta borgarinnar. Hvernig það verður eiginlega að flytja úr hjartanu. Verður hjartað eftir eða tekur maður það með sér? Samt minntist ég þess í morgun amk. að mér hefur liðið vel alls staðar sem ég hef búið, nema kannski þarna í slömminu í Svíþjóð um árið. (En það var nú í afar skamman tíma.) Svo kannski tekur maður hjartað með sér. Það er að minnsta kosti mjög spennandi að sjá hvar hjartað verður eftir áramótin. En nú er að raða niður jólalögum á konsertana sem framundan eru. Dio mio. Che belle cose!

A presto tutti frutti
Giovanna Rossa

mánudagur, nóvember 17, 2003

Jæja góðu hálsar, þvílík vika þessi nýliðna. Æðislegt að sjá blómstrandi Hildigunni aftur. Hún er greinilega á góðu róli í Parísarborg. Ég vildi að við Gummi gætum skroppið til hennar í vor... Sjáum nú til með það. Svo sá ég Kiri Te á laugardagskvöldið sem heillaði mig alveg uppúr skónum. Hún var hreint dásamleg konan sú og afsannaði líka að konur gætu ekki sungið eftir 45 ára aldurinn. Jezz. Háskólabíó var fullt af karlmönnum sem var skemmtilega absúrd því yfirleitt eru tónleikagestir kvenmenn í meirihluta. Kannski höfðu bara konurnar ekki efni á þessum miðum. En ég sá ekki eftir einni krónu þetta kvöldið. Svo þegar ég kom heim var partí hjá Hildigunni og vinir hennar voru að kveðja Fjölnisveginn. Það var voða sætt. Á sunnudagsmorgun mættum við mæðgur hjá Ástu Arnardóttur í heilsubótarmorgunmat. Namminamm. Allt svo gott og Harpa systir mætt og mamman og amman sem var 92 ára sæt og yndisleg. Þarna var einnig föðurfólkið hennar Hildigunnar og Ólöf dansari og óskaplega skemmtileg stund sem við áttum. Síðan fórum við og heimsóttum Sólveigu frænku sem er á batavegi eftir erfiða aðgerð. Litla sæta frænka okkar. (18 ára blómadís) Það var önnur gæðastund. Þá var ekið til ömmu og afa á Háaleitisbrautinni og síðan þurfti ég að skreppa á tónleika. Minn yndislegi Bjöllukór kom fram með Verslunarskólakórnum og kór Háskólans í Reykjavík. Það voru þrælskemmtilegir tónleikar. Enduðum hér heima. Síðasta kveðjupartíið. Vinkonurnar mættu og kvöddu Hildigunni. Guðmundur lék einleik á saxófón við mikinn fögnuð og síðan kom Skúli og keyrði dömuna á völlinn í morgun. Guðmundur spurði mig í morgun þegar hann vaknaði hvort ég hefði fellt tár þegar Hildigunnur fór. Ég sagðist bara hafa borið mig vel og grátið inní mér. Hann sagðist líka hafa gert það. Svo nú er aftur tómt í kotinu og Hildigunnur flogin suður á bóginn enn á ný.

Til hammara með ammara Hafsteinn frændi minn

a presto

Giovanna