mánudagur, nóvember 17, 2003

Jæja góðu hálsar, þvílík vika þessi nýliðna. Æðislegt að sjá blómstrandi Hildigunni aftur. Hún er greinilega á góðu róli í Parísarborg. Ég vildi að við Gummi gætum skroppið til hennar í vor... Sjáum nú til með það. Svo sá ég Kiri Te á laugardagskvöldið sem heillaði mig alveg uppúr skónum. Hún var hreint dásamleg konan sú og afsannaði líka að konur gætu ekki sungið eftir 45 ára aldurinn. Jezz. Háskólabíó var fullt af karlmönnum sem var skemmtilega absúrd því yfirleitt eru tónleikagestir kvenmenn í meirihluta. Kannski höfðu bara konurnar ekki efni á þessum miðum. En ég sá ekki eftir einni krónu þetta kvöldið. Svo þegar ég kom heim var partí hjá Hildigunni og vinir hennar voru að kveðja Fjölnisveginn. Það var voða sætt. Á sunnudagsmorgun mættum við mæðgur hjá Ástu Arnardóttur í heilsubótarmorgunmat. Namminamm. Allt svo gott og Harpa systir mætt og mamman og amman sem var 92 ára sæt og yndisleg. Þarna var einnig föðurfólkið hennar Hildigunnar og Ólöf dansari og óskaplega skemmtileg stund sem við áttum. Síðan fórum við og heimsóttum Sólveigu frænku sem er á batavegi eftir erfiða aðgerð. Litla sæta frænka okkar. (18 ára blómadís) Það var önnur gæðastund. Þá var ekið til ömmu og afa á Háaleitisbrautinni og síðan þurfti ég að skreppa á tónleika. Minn yndislegi Bjöllukór kom fram með Verslunarskólakórnum og kór Háskólans í Reykjavík. Það voru þrælskemmtilegir tónleikar. Enduðum hér heima. Síðasta kveðjupartíið. Vinkonurnar mættu og kvöddu Hildigunni. Guðmundur lék einleik á saxófón við mikinn fögnuð og síðan kom Skúli og keyrði dömuna á völlinn í morgun. Guðmundur spurði mig í morgun þegar hann vaknaði hvort ég hefði fellt tár þegar Hildigunnur fór. Ég sagðist bara hafa borið mig vel og grátið inní mér. Hann sagðist líka hafa gert það. Svo nú er aftur tómt í kotinu og Hildigunnur flogin suður á bóginn enn á ný.

Til hammara með ammara Hafsteinn frændi minn

a presto

Giovanna

Engin ummæli: