sunnudagur, apríl 27, 2003

Ástæðan fyrir þessari löngu pásu(!) er sú að ég er svo tölvuvitlaus að ég komst ekki inní bloggið. En. Versti dagur lífs míns var í gær. Vaknaði kl. 6.30 um morguninn með blóðnasir. Gat ekki sofnað aftur svo ég fékk mér 6 rótsterka kaffibolla og las helgarDV-ið (ég fór í fýlu útí moggann og sagði honum upp og dauðsé eftir því!). Alltíeinu fattaði ég að kaffi væri sennilega ekki sniðugt við þessar kringumstæður og blóðnasir kæmu útaf of háum blóðþrýsting.! Þvílík skömm. Er ég þá orðin miðaldra beibí? Ég sem á svo margt eftir og er ekki einu sinni ennþá búin að sýna og sanna hver ég er í raun og veru! Ég, þessi síunga og glaða kona hafði allt á hornum mér það sem eftir var dagsins. Breyttist í þreytta einstæða móður með tvö, sem á ekki neitt, kann ekki neitt og er þar að auki komin með of háan blóðþrýsting. Til að fullkomna miðaldra ímyndina keypti ég mér útsölubók eftir súperstjörnuna Oprah Winfrey um lífið í jafnvægi. Nú skal búa sig undir árin sem eru að nálgast.....ó vei....Og þegar kvöldið var komið og ég var bæði búin að horfa á Mortens bræðurna, sem ég var í hljómsveit með fyrir milljón árum og hét Gúanóbandið og Möggu Pálma sem ég söng með um áraraðir, þá fannst mér einhvern veginn allir hefðu meikað það nema ég......þvílíkur gærdagur og þvílík krísa.

En dagurinn í dag.. byrjaði amk. betur. Engar blóðnasir og klukkan orðin átta og ég fékk mér bara einn bolla af kaffi (temmilega sterku). Og viti menn. Ég fór í hlaupaskóna mína sem ég keypti í Frakklandi í fyrrasumar. Og fyrir kl. níu sveif ég út til hægri snú og gekk og hljóp til skiptis..í Hljómskálagarðinum í kringum Tjörnina og svona, leið ógeðslega vel eftir hlaupin og sturtuna og beint í barnamessuna með litlu sætustu kórana mína.

Engin ummæli: