miðvikudagur, maí 28, 2003

Jæja góðir hálsar og hvað er hægt að bulla í dag? Fór í morgun í lengsta göngutúr sem ég hef farið síðan ferðirnar hófust. Veðrið er eitthvað svo dásamlegt í dag að ég gæti jafnvel hugsað mér að fara útí garð að reyta arfa og þá er nú mikið sagt! Hitti norska vinkonu mína í Hljómskálagarðinum sem sagði mér að það væri líf eftir skilnað (einsog ég vissi það ekki!). Hún skildi allt dótið sitt eftir í mörgum kössum í Noregi fyrir nokkrum árum, flutti til Íslands með veiðistöng (góð hugmynd) og myndvél og tölvugræjur. Síðan hefur hún einskis saknað. Ég verð að viðurkenna að þetta fékk mig enn einu sinni til að hugsa hvað maður væri nú alltaf að safna dóti og vilja meira. Auðvitað á maður að henda þessu drasli og vera frjáls einsog fuglinn. Nema hvað. Við Guðmundur vöknuðum loksins á réttum tíma í morgun og hann fór í skólann á nýju skónum sem voru keyptir á Léttsveitarmarkaðinum í Outleti á Fiskislóð í gær. Svo var í gærkveldi hinn vikulegi göngutúr Léttsveitarinnar. Við lögðum bílunum hjá Seltjarnarneslauginni og gengum næstum að golfskálanum. Á heimleiðinni fékk ég dýrðlegt kaffi hjá Bimbu. Þegar heim kom lagðist ég í bókalestur og las helminginn af hinni feigu skepnu eftir Philip Roth. Var svo að velta því fyrir mér hvort allir karlmenn væru í raun og veru ofboðslega veikir fyrir barnaklámi.Komst ekki að neinni niðurstöðu en þetta er áhugaverð bók sem veitir manni sýn inní heim karla.

a presto

Giovanna

Engin ummæli: