Gott kvöld góðir lesendur,
Nú er smá slökun í gangi hér að Via Rossa; maður er rétt að ná sér eftir vorgeðveikina. Nú verður maður bara að fara í einhvers konar endurhæfingu. Mér finnst samt Hveragerði megi bíða, en auðvitað eru það algjörir fordómar. Það verður kýlt á sund, gufu, garðinn og dalinn og hver veit nema að maður hendi sér í golf. Samt er ég ekki alveg að sjá mig í því. En alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég meina hver hefði trúað því að ég ætti eftir að renna um brekkur Selva Valgardena? Kom mér undan að syngja í Stokkseyrarfjörunni fyrir einhverja ferðamenn, þetta átti að vera sexi víkingasöngur með trommuslagi og gærum. Ég meina, erum við ekki meira að tala um Silvíu Nótt. En eitthvað söngævintýri er á morgun. Á vegum Listahátíðar. Ég er ekki alveg viss um hvað við Signý erum að fara að gera, en altsaa, einhvers konar gjörningur með þýskum (held ég)listamanni. Við eigum að syngja í þyrlu hangandi í kaðli yfir Reykjavík, eða eitthvað í þeim dúr. Við þurfum fyrst að taka sönginn upp á band, ef maður náttúrlega missir röddina í kaðlinum skiljiði! Nei, ég veit ekki alveg hvað við erum að fara út í en það kemur í ljós. Á morgun. Annars fór ég á skemmtileg atriði á laugardag og sunnudag á Listahátíð. Fór í Listasafn Reykjavíkur og hlustaði á Nýló kórinn sem var með slatta af stelpum úr Léttsveitinni. Þau fluttu alveg stórkostlega skemmtilega inpróvisasjón. Mikil stemning. Slökkt ljós og mikil og djúp öndum. Svo stukkum við á tónleika Miriam Makeba, sem var æðislega flott. Djúp og breið og flott túlkun. Endaði þann daginn á Benna Hemm Hemm, sem er mjög skemmtilegur og með góðar hugmyndir. Í gær fór ég svo í hinn hýra Hafnarfjörð og tók Nino Rota og Fellini æði frá 17-22. Fyrst tónleikar með kammersveit Hafnarfjarðar með Nino Rota og svo La Strada Fellinis.Það var í einu orði frábær skemmtun.
a presto
Giovanna
Engin ummæli:
Skrifa ummæli