mánudagur, ágúst 22, 2005

Jæja góðir hálsar, aðalfrétt dagsins er að ég fór ekki uppá fæðingardeild í dag.. Ætla að reyna að stilla mig um að vera alltaf ofaní blessuðu barninu. Þau koma sennilega heim litla fjölskyldan á morgun. Fór í Breiðagerðisskóla með Guðmundi Þóri en hann var að hefja nám í 5. bekk. Gaman að sjá hvað börnin hafa stækkað í sumar. Og breyst og þroskast. Hefði náttúrlega átt að fara upp í kirkju, til að hreinsa á skrifborðinu mínu en var auðvitað upptekin við að fara í Pennann og kaupa skólavörur fyrir Gumma minn. Ákvað að byrja að taka til á skrifborðinu á morgun. Draslið hleypur nú ekki frá manni... Jæja...svo týndi ég rifs útí garði og er alveg að fara að setja trommusettið hans Gumma niðrí kjallara svo ég komist inní tónlistarherbergið mitt. Þetta blessaða trommusett tekur allt herbergið, en annars hef ég ákveðið að setja það inní bílskúr um leið og Hi og Skú eru búin að tæma þar. Æfingar á trommur þurfa sitt pláss og helst hljóðeinangrun. Mæli með yndislegri mynd sem ég horfði á í gærkveldi og heitir eftir samnefndi bók Frances Mayes; Under the Tuscan Sun. Mynd sem minnir mann á að njóta augnabliksins og hætta að flýta sér. Ég man þegar ég var búin að vera á Ítalíu í þetta yndislega hálfa ár þegar ég hét því að hætta að stressa mig, fara aldrei aftur útí vinnugeðveikina og muna alltaf eftir því að elda oft ástríðufullar máltíðir fyrir stórfjölskylduna. Því þegar allt kemur til alls þá er aðalatriði að vera en ekki gera. Eða hvað? Ég er nú ekki viss um að Baugsmenn myndu vera sammála mér.

a presto
Nonna Gio

Engin ummæli: