fimmtudagur, maí 26, 2005

Góðan daginn hálsar mínir!

Þessa dagana er ég eitthvað hálf svona þreytt og eftir mig. Samt ekki ennþá búin með vorprógrömmin. En þetta hlýtur að jafna sig. Það gerir það venjulega. Kláraði einkatímana hjá Halldóri í vikunni og hef reyndar ekkert lést, þótt ég hafi styrkst, þannig að það er spurning hvort ég kaupi mér ekki bókina borðaðu þig granna og fari nú enn eina ferðina, þe í 35 sinn að reyna að koma mér í formið rosalega. Alltaf að reyna. Ævisagan mín á að heita, Reyndi allt sitt líf að koma sér í form. Svo er nú það. Já allt svona eitthvað misheppnað hjá mér þessa dagana. Meira að segja þegar ég ætlaði að vera ofsa næs og gefa Hildigunni uppáhaldsdóttur og Skúla mínum elskulega tengdasyni gamla gráa Renaultinn minn þegar ég fékk minn eldrauða Hondu jeppa. Þá gekk nú ekki betur til en að blessuð börnin eru búin að vera stöðugt með gráa gamla í viðgerðum. Vesalings börnin mín. Svo er það tískudaman Jóhanna. Alltaf jafn óheppin þegar maður er gómaður í glansblöð. Hringdi til mín þessi yndislega blaðakona af Vikunni og spurði mig spjörunum úr um fötin mín og smekk. Og ef það er eitthvað sem mér finnst ég léleg í þá er það að fylgjast með tískustraumum og ég hef ekki hundsvit á þessum blessuðu merkjum sem tröllríða tískunni. Jæja samt er maður alltaf jafn veikur fyrir athyglinni, en ég gat ekki annað en brosað þegar að fyrirsögnin var, Konur með sérstakan fatastíl.


Mamma mia!

A presto

Giovanna

Engin ummæli: